140. löggjafarþing — 107. fundur,  26. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[00:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hægt að nálgast þetta mál út frá samanburði einstakra verkefna eins og hér hefur verið gert og þetta verkefni borið saman við önnur hugsanleg jarðgöng sem rædd hafa verið í tengslum við samgönguáætlun. Þar er um að ræða göng bæði fyrir vestan og austan sem hafa lent miklu framar í forgangsröð stórverkefna og jarðganga miðað við þær forsendur sem samgönguáætlun er byggð á. Það má ræða þetta út frá þeim forsendum.

Það er auðvitað alltaf ákveðin hætta þegar við ræðum mál af þessu tagi að menn lendi í kjördæmatogstreitu, vil ég segja, en hins vegar má segja að sú aðferðafræði sem menn hafa reynt að temja sér í gerð samgönguáætlunar sé einmitt til þess hugsuð að það verði ekki bara hreinn hnefaréttur sem ráði því hvaða verkefni færast fremst í röðina heldur búi hlutlæg og almenn sjónarmið að baki þeirri forgangsröð og ráði niðurstöðu. Þá skiptir auðvitað máli að sem víðtækust sátt sé um hvernig aðferðin er, hvernig málsmeðferðin á að vera og hvernig menn vinna þessa hluti því það verður jafnan svo að menn eiga sér bakland á ákveðnum svæðum og auðvitað kemur þrýstingur frá ákveðnum svæðum á tiltekin verkefni. Menn munu aldrei ná algerum samhljómi í því. Þess vegna skiptir svo miklu máli að aðferðafræðin sé tiltölulega óumdeild og byggi á almennum og hlutlægum forsendum.

Ég vil spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason hvort hann sé ekki sammála mér um að hægt sé að taka tillit til sjónarmiða eins og greiðslu veggjalda þegar verið er að vega og meta verkefni í samgönguáætlun (Forseti hringir.) en um leið hvort ekki sé nauðsynlegt að gera það í samhengi við aðrar forsendur sem búa að baki forgangsröðun verkefna.