140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ræðuna. Það má skýrt heyra af máli hans að þetta er honum mikið hjartans mál. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því hversu mikil andstaða hans er gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Og ég tek undir það, ég er ósammála því að Ísland eigi að gerast aðildarríki að Evrópusambandinu og greiddi meðal annars atkvæði nýlega um að þjóðin fengi tækifæri til að greiða atkvæði um það hvort halda ætti samningaferlinu áfram eða ekki.

Hins vegar vildi ég gjarnan spyrja hv. þingmann hvenær hann telji að hin svokallaða aðlögun hafi hafist. Hófst hún 1992 eða 2009? Árið 1992 gekk EES-samningurinn í gildi, 2009 sóttum við hins vegar um aðild að Evrópusambandinu. Og sérstaklega í ljósi þess að að hluta til á að nýta þessa IPA-styrki í að styrkja matvælaöryggi á Íslandi, það var að minnsta kosti hugmyndin, og hv. þingmaður stóð einmitt að því, var (Forseti hringir.) þá formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og stóð að breytingum í samræmi við EES-reglur á matvælalöggjöfinni sem (Forseti hringir.) gerir einmitt nauðsynlegt að bæta tækjabúnað og mannauð hjá þeim stofnunum sem eiga að fylgjast með matvælaörygginu.