140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:44]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að geta verið að minnsta kosti sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um eitt atriði og það er að ég hygg að umræða um EES-aðild okkar sé einnar messu virði í umræðum. Það er alveg öruggt mál. Staðan er orðin þannig að við þurfum að hugleiða það.

Ég er hins vegar gjörsamlega fullviss þess og það eru ekki dæmi þess að menn hafi samið sig undan meginreglum í regluverki ESB. Það er það sem ég segi að sé að berja hausnum við stein. Ég vil líka gjarnan, eins og þingmannanefndin mælti með, taka til rækilegrar endurskoðunar innleiðingarkerfið og aðkomu okkar að því sem er stutt og reyndar ekki þingsins heldur gerist úti í Brussel. Þar vildi ég að aðkoman yrði flutt inn til þingsins og (Forseti hringir.) ég hygg að menn skyldu skoða það að við yrðum verulega áhrifalaus innan ESB (Forseti hringir.) með 430 nefndir sem við getum ekki sinnt.