140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Það er ýmislegt sem fólki getur svo sem brugðið við í þessari umræðu. Í dag var nefnt að með IPA-styrkjunum væru menn að kaupa sér velvild og allt að því ýjað að því að verið væri að múta fólki til að samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst þetta sérstaklega áhugavert því að eins og hv. þingmaður veit er ég líka þingmaður Suðurkjördæmis og þar er eitt helsta matvælaframleiðslusvæði landsins. Ætlunin var að setja allt að því 300 millj. kr. af IPA-styrkjum í að styrkja eftirlit með ýmsum efnum og tryggja betur matvælaöryggi á Íslandi. Ég mundi halda að það að styrkja þetta eftirlit og framkvæmd þess væri kannski ekki tilefni til að auka jákvæðnina eða velvildina á Suðurlandi, sérstaklega ef það væri orðið mjög íþyngjandi, eins og menn veltu fyrir sér þegar lög nr. 143/2009 voru samþykkt og þar áður lög sem við erum skyldug að innleiða samkvæmt EES-samningnum.

Ég er alveg sammála þingmanninum um að við erum í aðlögunarferli en ég er ósammála þeim áherslum sem hafa komið fram, kannski sérstaklega í máli sumra hv. þingmanna Vinstri grænna til dæmis, að aðlögun hafi hafist við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að hún hafi byrjað þegar við tókum þátt í EES-samningnum og dæmi um það má benda á dagskrána hér í dag, 55,6% af öllum málum sem eru á dagskrá tengjast með einum eða öðrum hætti EES-samningnum. Ég hefði því áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvort hún sé sammála mér hvað það varðar að aðlögunarferlið hafi í raun og veru hafist 1992 og minn flokkur og hennar flokkur hafi þar með staðið að aðlögun að Evrópusambandinu.