140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stóri munurinn á þeirri aðlögun sem við erum að horfa upp á hér og nú og þeim breytingum á íslenskum réttarreglum sem áttu sér stað í kjölfar EES-samningsins er sá að Alþingi Íslendinga samþykkti EES-samninginn. Mér vitanlega erum við ekki búin að samþykkja það að ganga í Evrópusambandið. Það er stóri munurinn. Meðan ekki er búið að samþykkja að ganga í Evrópusambandið og í rauninni að taka upp þá þætti sem við höfum ekki þegar samþykkt að innleiða í okkar rétt og ganga að fullu inn í Evrópusambandið, þá er mjög einkennilegt að við séum í aðlögun. Það er eins og verið sé að baktjaldamakkast með þetta hér, sérstaklega af því að menn geta ekki viðurkennt að þetta sé í gangi þó að það standi svart á hvítu í þeim þingskjölum sem við erum með til umræðu í dag og þó að það standi á heimasíðu Evrópusambandsins að umsóknarferlið fari þannig fram að ESB. Hvers vegna geta menn einfaldlega ekki talað um hlutina eins og þeir eru? Ég get ekki skilið hvers vegna farið er fram með þessum hætti nema menn séu með þá aðferðafræði í gangi að ganga það langt og aðlaga okkur það mikið að ekki verði aftur snúið og það verði rökin fyrir því að menn þurfi að samþykkja það að ganga í Evrópusambandið. Í rauninni er tilgangslaust að vera að fabúlera eitthvað um það.

Þeir sem styðja þetta mál eiga að koma hreint fram og segja okkur hvers vegna aðlögun er í gangi og hvers vegna þeir hafa hingað til ekki viljað viðurkenna það þó að það standi svart á hvítu í þingskjali sem er til umræðu núna en þeir virðast ekki ætla að blanda sér í umræðuna í dag, því miður.