140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að ítreka spurningu mína: Hvenær hófst aðlögunin að mati hv. þingmanns? Var það 1992 eða var það 2009?

Hjá hv. þingmanni kom fram rökstuðningur fyrir því að munurinn á þeirri löggjöf sem flokkur hennar og Framsóknarflokkurinn, þegar við vorum í ríkisstjórn, stóðum að við að innleiða og sem tengdist EES-samningnum væri sá að þar hefði Alþingi samþykkt samninginn. Ég verð að segja að ég á svolítið erfitt með að samþykkja þann rökstuðning vegna þess að ég tel að það hafi falist það mikið fullveldisframsal í EES-samningnum og spurning hvort Alþingi hafi haft heimildir samkvæmt stjórnarskrá landsins til að samþykkja slíkt fullveldisframsal, hvort ekki hefði þurft að setja inn ákvæði í stjórnarskrá til að tryggja það, og ekki fór fram nein þjóðaratkvæðagreiðsla um það, sem ég tel að sé alger forsenda. Það verður endanlega að vera þjóðin sem samþykkir, það getur ekki verið Alþingi sem ætlar að fara að samþykkja það að ganga þarna inn eða ekki.

Hins vegar eru Íslendingar dagsdaglega víðs vegar í samfélaginu að þiggja styrki sem tengjast Evrópusambandinu. Nýlegt dæmi um það núna, frá 28. maí, var þegar Háskóli Íslands fékk einn stærsta styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu í sögu skólans upp á 400 millj. kr. sem eiga að fara í að þróa tölvu sem getur prófað hvaða áhrif lyf hafa á efnaskipti mannsins. Þetta tengist líka EES-samningnum vegna þess að öll lyf sem koma inn í landið þurfa meira og minna að uppfylla skilyrði sem tengjast EES-samningnum og samningssambandi okkar við þá. Ég verð að segja að þarna tel ég að menn sem ætla fyrst og fremst að hugsa um það að þróa tækjabúnað, þróa mannauð í háskólanum með þessum 400 millj. kr. eru svo sannarlega ekki að hugsa um að þeir ætli sér að verða svo ótrúlega meira velviljaðir gagnvart Evrópusambandinu en háskólamenn eru kannski almennt nú þegar.