140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að minnsta kosti alveg ljóst að hörð afstaða mín í þessum efnum, þ.e. að ekki yrði sótt um þessa aðlögunarstyrki að Evrópusambandinu fyrir þær stofnanir sem heyrðu undir ráðuneytið, var ekki vel séð af hálfu ríkisstjórnarinnar, það skal bara sagt hér. Það var illa séð af forustumönnum hennar að ég skyldi ekki hlýða umyrðalaust. Eins og forsætisráðherra sagði í viðtali, að mig minnir, þurfti Jón að íhuga stöðu sína af því að hann vildi spyrja hvort þetta væri í samræmi við lög og reglur. Ákafinn í að komast í Evrópusambandið var slíkur hjá forsætisráðherranum og allt gott um það að segja. Hún er einlæg í því að vilja komast í Evrópusambandið.

Hitt er hárrétt, hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson lýsti því jafnframt yfir í kjölfarið að hann mundi ekki styðja það að stofnanir á vegum hans ráðuneytis mundu sækja um þessa aðlögunarstyrki (Forseti hringir.) og þeir eru síðan að veltast á milli ráðuneyta, utanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis, og hvar þeir eru (Forseti hringir.) nákvæmlega núna get ég ekki svarað hv. þingmanni.