140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:46]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt. Ég held að allir sjái vandræðaganginn í þessari umræðu vegna þess að lögformleg staða og heimildir fyrir því að sækja um þessa styrki og taka við þeim var mjög óljós og menn uppgötvuðu síðan að var ekki fyrir hendi. Umræðan um að sækja um milljarðastyrki til Evrópusambandsins án þess að væru fyrir því heimildir Alþingis hlaut að verða mjög vandræðaleg, hvaða skoðun sem við höfðum á styrkjunum út af fyrir sig.

Það er hárrétt að þetta var látið fara — að mig minnir, þetta fór svo marga kollhnísa í stjórnsýslunni, þ.e. að sækja um þessa styrki — í gegnum svokallaða ráðherranefnd um Evrópumál. Ég sat ekki í henni og var ekki talinn verðugur til að sitja í henni. Síðan flaut þetta á milli utanríkisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins, það er hárrétt. Því var velt upp hvort einstakir ráðherrar gætu sloppið við að láta þetta fara í gegnum sín fjárlög (Forseti hringir.) með því að láta það allt fara í gegnum t.d. utanríkisráðuneytið. Þetta var allt til umræðu.

Ég kom (Forseti hringir.) hreint og beint fram og sagði: Ég tek ekki þátt í neinum skollaleik í þessum efnum, (Forseti hringir.) hvorki fyrir hönd ráðuneytisins beint né að önnur ráðuneyti dekki slíka gjörninga (Forseti hringir.) fyrir mína hönd. (Gripið fram í.)