140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:51]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það verða aðrir að svara fyrir og svara hver fyrir sig um það hvort siglt hafi verið undir fölskum fána. Öllum var ljóst undir hvaða fána ég gekk alla vegferðina frá stofnun þessa flokks, þetta er ein af grunnstoðum flokksins að berjast gegn aðild að Evrópusambandinu. Í gegnum stofnun flokksins, gegnum baráttu hans undanfarin ár og fram til kosninga barðist sá sem hér stendur gegn því að við tækjum þátt í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það stendur enn. Og eins og ég sagði áðan kom aðildarumsókn að Evrópusambandinu inn á einn fyrsta fundinn sem haldinn var um ríkisstjórnarsamstarf milli flokkanna, hún var býsna föst og kom þarna strax fram.

Hv. þm. Atli Gíslason vék að þessu eins og hv. þingmaður talaði um og hann svarar fyrir það og þeir sem þarna (Forseti hringir.) eiga hlut að máli svara fyrir það en ég legg áherslu á að ég stóð alla tíð gegn því að við blönduðum (Forseti hringir.) Evrópusambandsumsókn inn í stjórnarsamstarfið. Þar voru önnur miklu brýnni verkefni (Forseti hringir.) að takast á við og þetta óþurftargæluverkefni Samfylkingarinnar klýfur þjóðina í tvennt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)