140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að skýra þau orð sem hv. þingmaður lét falla: Það er skilningur hv. þingmanns að þegar Íslendingar verða búnir að fella aðildarsamninginn sem ríkisstjórnin mun gera við Evrópusambandið muni Evrópusambandið, á grundvelli 2. töluliðar 16. gr. samningsins, óska eftir endurgreiðslu á öllum þeim styrkjum sem veittir hafa verið á grundvelli þessa samnings. Hefur hv. þingmaður beint fyrirspurnum varðandi þetta mál til þeirra aðila sem bera ábyrgð á því eða bera það fram, til fulltrúa meiri hlutans? Ég hef ekki séð þess stað í umræðunni að þeir hafi svarað spurningum um þetta. Ef svo er hefur hv. þingmaður fengið einhver svör við því hvort þessi skilningur sé sá sem hv. þingmenn stjórnarliða og þeir sem bera ábyrgð á þessu máli leggja í samninginn? Eða er þetta ein af þeim spurningum sem enn er ósvarað vegna þess að stjórnarliðar hafa ekki séð sér fært, nema að mjög litlu leyti, að blanda sér í umræðuna?

Mig langar síðan, frú forseti, að spyrja hv. þingmann, út af þeirri umræðu um aðlögun sem mikið hefur farið fyrir þegar við ræðum um Evrópusambandið, hvort hún geri sér grein fyrir því hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra viðurkennir ekki það sem hann hefur sjálfur skrifað undir í þessum samningi, að aðlögun sé í gangi. Ísland er að aðlaga réttarreglur sínar að réttarreglum Evrópusambandsins.