140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við fyrstu spurningunni er já. Ég hef þráspurt hæstv. utanríkisráðherra um það, bæði skriflega og munnlega, hér í þinginu hvort við þurfum að greiða til baka IPA-styrkina þegar þjóðin segir nei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svarið hefur alltaf verið nei, að við þurfum ekki að greiða þessa peninga til baka. Síðast sagði hann þetta í fyrirspurnatíma í morgun. Ég var að gefa hæstv. utanríkisráðherra færi á því að leiðrétta þennan misskilning vegna þess að nú liggur þessi þingsályktunartillaga fyrir þinginu.

Vel má vera að hæstv. utanríkisráðherra skýli sér á bak við það að réttarreglur verða ekki settar á Íslandi fyrir því að endurgreiðslan eigi að eiga sér stað fyrr en þetta plagg er samþykkt hér. Gildistakan verður ekki fyrr en Alþingi er búið að samþykkja þennan samning, það er klárt ákvæði um það í gildistökugreininni. En það verða hreinar og klárar réttarreglur til hér á landi þegar búið er að samþykkja þessa þingsályktunartillögu vegna þess að framkvæmdastjórninni er heimilt að gera fjárhagslega leiðréttingu síðar á samningnum og það kemur fram í kaflanum um lok áætlana undir miðlægri og sameiginlegri stjórn.

Og ekki bara það. Í 4. tölulið segir að setja megi ítarlegri reglur um lok áætlananna í fjármögnunarsamningnum eða sviðstengdum samningum. Hér er því jafnframt um lagasetningarframsal að ræða þrátt fyrir að þessi samningur sé undirritaður af báðum aðilum.

Þetta er í stíl við Icesave-samninginn. Ég stórefa að hæstv. utanríkisráðherra hafi lesið þann samning, sérstaklega þegar haft er í huga að hann telur að ekki séu nein lög eða annað um að Evrópusambandið geti krafið okkur um endurgreiðslu og ekki síður í ljósi þess að hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra hefur greinilega farið í gegnum heilaþvottastöð Samfylkingarinnar þar sem fólki er talin trú um að ekki sé um aðlögun að ræða.