140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. ESB-málið hefur verið rekið á blekkingum og spuna frá því að það kom fyrst inn á borð Alþingis — og jú, það var rekið á blekkingum og spuna löngu fyrir kosningarnar því að það hefur nú verið upplýst að nokkrir hv. þingmenn Vinstri grænna hafa viðurkennt að búið var að semja um að ESB færi af stað fyrir kosningarnar 2009. Þar með hefur sá stjórnmálaflokkur gerst uppvís að hinum mestu kosningasvikum sem ég man eftir.

Svo kemur málið hér inn í þingið og Vinstri grænir reka það á þann hátt að það verði að kíkja í pakkann og þetta sé allt eðlilegt og þess vegna verði að hleypa því áfram. Lengi vel var spuninn keyrður á því að evran væri gulrótin því að þá var ástandið á evrusvæðinu betra en það er í dag. Einnig var keyrt á Svíaspunann, eins og ég kalla það, en hann var á þann veg að leggja þyrfti inn umsókn í hvelli vegna þess að Svíar færu með forsætið í Evrópusambandinu. Núna er talað um Danaspunann, þ.e. að við verðum að opna alla kaflana á meðan Danir eru í forsvari fyrir Evrópusambandið.

Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvers vegna hæstv. forsætisráðherra hafi farið af stað með þetta bréf 20. ágúst 2010 inn í fagráðuneytin, þar sem hvatt var til þess að ráðuneytin skilgreindu hvar IPA-aðstoðin ætti heima og stofnanirnar sæktu um IPA-styrkina, en það er einn spuninn í viðbót. Það var alltaf vitað 2009 að sérstaka lagaheimild þyrfti til að taka við þessum styrkjum. Hér eru þingmenn sem voru óþreytandi við að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þessi mál en því var alltaf eytt.

Þetta er spuninn sem þetta mál hefur verið keyrt á og síðasta hneykslið var á þann veg að málið var afgreitt frá hv. utanríkismálanefnd með blekkingum. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var fjarverandi og (Forseti hringir.) nýr meiri hluti myndaðist í nefndinni. ESB nær aldrei í gegn á Íslandi, meðal annars vegna málsmeðferðarinnar.