140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi upprifjun hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar er áhugaverð, sérstaklega vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur ítrekað komið í þennan ræðustól og lýst því yfir að álit meiri hluta utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009 sé sín biblía í Evrópusambandsmálum og eftir henni fari hann og líti þannig á að þar sé umboð sitt markað og ekki eigi að víkja frá því. Þetta er athyglisvert í því sambandi.

Ég verð þó að segja við hv. þingmann að mér finnst kannski mörg önnur rök vega þyngra á vogarskálunum þegar kemur að því að hætta aðildarumsóknarferlinu en nákvæmlega þessir IPA-styrkir og málsmeðferð vegna þeirra. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að ræða þetta mál vel í þinginu vegna þess að það endurspeglar m.a. mjög vel þau vinnubrögð og þá tvöfeldni sem hefur verið uppi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í aðildarferlinu öllu, sérstaklega þá tvöfeldni sem forustumenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa sýnt með því að segjast í öðru orðinu vera gallharðir andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu en vinna á hinn kantinn að því hörðum höndum að koma þessari aðlögun í gegn.

Ég verð að nota tækifærið, hæstv. forseti, til að benda á, af því að hér var hv. þm. Jón Bjarnason áðan spurður um starfslok hans í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, að hæstv. utanríkisráðherra svaraði mér í framhjáhlaupi í morgun þannig að það hefðu verið ákveðnar ástæður fyrir því að tafir hefðu orðið á viðræðum í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum en slíkar tafir væru ekki lengur að þvælast fyrir.