140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég lít svo á að með því að fara þessa IPA-vegferð séu stjórnvöld komin út fyrir það umboð sem Alþingi veitti þeim á sínum tíma. Með því að samþykkja þetta er Alþingi að víkka út það umboð sem á sínum tíma var veitt.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að tillögugreinin sjálf er ósköp fátækleg og eflaust gætu stjórnvöld á einhverjum tímapunkti sagt: Þarna stendur hvað við megum og megum ekki. Nefndarálit meiri hlutans hefur hins vegar verið kynnt sem leiðarljós þeirra sem leiða þessa vinnu en þar er ekki að finna stafkrók um þessa IPA-styrki. Ekki er stafkrókur um hvað við munum fara í eða um það að taka við þeim fjármunum sem eru gríðarlega háir þegar upp er staðið. Það er heldur ekki stafkrókur um það að svokölluð Evrópustofa, áróðursstofa þessa ferlis, sé fjármögnuð af þessum IPA-sjóðum öllum saman.

Hv. þingmaður nefndi þau fríðindi sem koma fram í samningnum sem fylgir þingsályktunartillögunni sem erlendir aðilar eða þeir aðilar sem munu vinna fyrir Evrópusambandið vinna eftir, þ.e. þessum IPA-styrkjum, og nefndi það ágætlega hvað gæti hugsanlega frestast. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvort hann taki undir þá gagnrýni sem fram hefur komið um að verið sé að mismuna mjög heiftarlega innlendum aðilum sem þurfa að keppa við hliðina á þeim aðilum þarna um einstök verkefni, þ.e. að annar hópurinn njóti mikilla fríðinda, skattfríðinda og guð má vita hvað meðan hinn hópurinn sem kannski vill keppa á sama grunni þurfi hins vegar að borga skatta sína og gjöld til íslenskra stjórnvalda. Ef ég man rétt gagnrýndu endurskoðendur þetta fyrirkomulag.