140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður velti upp ástæðum fyrir því að þetta mál fylgdi ekki með í pakkanum þegar verið var að koma þessari umsókn í gegnum þingið og lá ekki fyrir þegar fjárlögin voru samþykkt. Það er mjög eðlilegt að velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum þetta IPA-dæmi allt saman kemur ekki strax fram þrátt fyrir að spila augljóslega býsna stóran þátt í aðlöguninni allri, að minnsta kosti ef þeir fjármunir eru notaðir eftir bókinni. Samkvæmt þeim bæklingi sem Olli Rehn gaf út á að nota þá til að styrkja stjórnsýslu og þess háttar. Það væri eðlilegt að upplýsingar um þessa styrki hefðu fylgt með þegar umsóknarferlið hófst en slíkt kemur hvergi fram í nefndaráliti meiri hlutans og ég hef ekki fundið orð um þessa styrki.

Þetta snýst að sjálfsögðu ekki um verkefnin sem beðið hafa þess að fá fjármuni eins og hv. þingmaður benti á. Verkefni eins og atvinnuþróunarverkefni á Suðurlandi og á Suðurnesjum eru að mínu mati alveg ótengd þessu. Þetta eru mjög góð verkefni og eiga skilið fjármuni annars staðar frá en úr þessu kerfi því að þau tengjast ekkert aðlögunarferlinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér eða hvort hann líti svo á að verið sé að nýta þessa peninga á réttan hátt.

Síðan ætla ég í seinna andsvari að spyrja hv. þingmann út í orð forseta framkvæmdastjórnar ESB sem var að láta ljós sitt skína erlendis í dag.