140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. um að það er eðlilegt að gera sömu kröfur til þingmanna og hæstv. forsætisráðherra gerði þegar hún heimtaði að þingmenn yrðu kallaðir í salinn áður en hún hæfi upp raust sína. En við erum kannski miklu liprari við að sýna biðlund en hæstv. forsætisráðherra og verðum bara róleg eitthvað áfram.

Á vefmiðlum í dag mátti lesa yfirlýsingar sem José Manuel Barroso var að senda frá sér og ein yfirlýsingin lýtur að því að þessi ágæti maður og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sér núna pólitískt tækifæri fyrir frekari samruna en verið hefur undanfarið. Hann sér tækifæri til að fara í miklu meiri efnahagslegan samruna en áður hefur verið gert og setja nýjar reglur er lúta að eftirliti með fjárreiðum einstakra ríkja Evrópusambandsins. Á vefmiðlinum euobserver.com er vitnað í herra Barroso þar sem hann segir, og ég ætla að reyna að þýða þetta, að það sé eingöngu framkvæmdastjórnin sjálf sem geti gefið slíkt strangt og óhlutdrægt yfirlit yfir stöðu efnahagsmála í öðrum ríkjum og einungis hún geti í raun hvatt til þess að taka erfiðar ákvarðanir. Hann klykkir svo út með því að segja að það þurfi hugrekki og forustu til að útskýra fyrir Evrópuþjóðunum hvað gerist ef ekki er genginn sá vegur að styrkja Evrópusambandið.

Ég spyr: Gefur þetta ekki enn og aftur tilefni til að staldra við og velta fyrir sér hvert Evrópusambandið er að fara? Er verið að búa til nýtt þjóðríki þarna austur frá eða hvað er í gangi?