140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar þarna í athyglisverð orð Barrosos og von að spurt sé hvert Evrópusambandið stefnir. Við veltum því fyrir okkur á hverjum einasta degi. Við sjáum auðvitað á vandræðunum innan evrusvæðisins að vegna þess að þar er ekki sameiginlegt fjárstjórnarvald er evran að liðast í sundur. Það er rót þess vanda sem evran á við að glíma. Það er því ekki nema eðlilegt að menn eins og Barroso, sem er mikill talsmaður þess að Evrópusambandið þétti og styrki samstarf sitt og samband, tali eins og hv. þingmaður vitnaði til. En það er ekki það sama og við heyrum frá fulltrúum okkar hér sem halda því fram að Evrópusambandið sé eitthvað allt annað. Við sjáum á þeim dæmum sem við höfum núna fyrir framan okkur varðandi EES-samninginn og sameiginlega fjármálaeftirlitið einmitt líka þá tilhneigingu að taka þetta atriði inn í samninginn. Þá þurfum við að berjast fyrir hagsmunum okkar og þeir eru að viðhalda tveggja stoða kerfinu. Ég vil ekki sjá sameiginlegt fjárstjórnarvald í Evrópu. Ég vil ekki þjóðríkið Evrópu. Ég vil vera í góðu samstarfi og í góðu sambandi við Evrópu hér eftir sem hingað til en það sem birtist í þeim orðum sem hv. þingmaður var að vitna til er ekki heillavænleg framtíðarsýn.

Annað var líka í fréttum í dag og það er að 70% breskra íhaldsmanna í systurflokks míns flokks í Bretlandi vilja leyfa Bretum að kjósa um það hvort þeir verða áfram innan Evrópusambandsins eða ekki (Forseti hringir.) Við sjáum að umræðan er í báðar áttir og þess vegna eigum við að staldra við, setja þetta á ís, draga þetta til baka og hugsa um okkar eigin hagsmuni á meðan.