140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[19:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er það hreinskilnasta sem ég hef heyrt og vil aftur hrósa hæstv. ráðherra aðildarsinna að tala héðan úr ræðustól þingsins. Hér fór hann yfir það sem menn hafa verið að fela, hann talaði að vísu um „ýmsar“ sérlausnir. Ég vísaði áðan í skrif Stefáns Más Stefánssonar sem er með allra bestu lögfræðingum, ekki bara á Íslandi heldur í álfunni (Utanrrh.: … ráðuneytisins.) um Evrópurétt. Stefán Már Stefánsson segir að allar þessar tilhliðranir séu þess eðlis að ESB geti breytt þeim einhliða. Það er ekkert öðruvísi og menn eiga bara að segja það.

Ég er búinn að taka þessa umræðu hvað eftir annað og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hreint fram ef undan er skilið orðið „ýmsar“ en hann hefur örugglega kynnt sér málin mjög vel, ég er alveg fullkomlega sannfærður um það. Það er hægt að nálgast þetta allt á erlendri tungu en svo sem líka á íslensku af því að Stefán Már Stefánsson hefur skrifað mikinn litteratúr um þessi mál. Það er algerlega séríslenskt að menn tali eins og menn hafa gert hér, ekki eins og hæstv. ráðherra talaði núna heldur almennt, um að þetta komi allt saman í ljós, það sé rosalega spennandi hvað muni gerast.

Ég var í miklum samskiptum við ungliðahreyfingu í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Austurríki þegar þeir sóttu um aðild á sínum tíma. Það hvarflaði ekki að neinum að efast, þessir stjórnmálaflokkar voru allir búnir að gera það upp við sig að þeir vildu að viðkomandi land yrði aðili að Evrópusambandinu. Svo börðust menn fyrir því. En hér segja menn: Við bara sjáum til hvað er í þessu. Þetta er ofsalega spennandi. Það er ekki boðlegt. Og talandi um friðarspilla, ef við vildum hafa frið um þetta mál á Íslandi (Forseti hringir.) ættum við alla vega að koma okkur saman um að klára málið á einhverjum tímapunkti og kjósa síðan um það. Því miður (Forseti hringir.) treysta aðildarsinnar sér ekki í það.