Barnalög

Fimmtudaginn 31. maí 2012, kl. 15:22:26 (11657)


140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[15:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að ágætlega hafi verið farið yfir þetta í nefnd og í rauninni tekið skref í þá átt sem þingmaðurinn, hv. framsögumaður, rakti áðan og að það sé verið að endurskoða heildarrammann utan um kostnað, meðlög og annað annars staðar.

Eins og komið hefur fram hafa þessi mál verið í deiglunni undanfarin ár. Við sjáum hvernig þessu fleytir fram, það er ekki lengra en sex ár síðan Alþingi samþykkti sameiginlega forsjá og lögfesti sem meginreglu þó að okkur finnist það jafnsjálfsagt í dag og það er. Núna, á ekki fleiri árum, erum við komin að þeim tímapunkti að lögfesta dómaraheimild til úrskurðar um sameiginlega forsjá. Ég held að við höfum ekki verið nema fjórir þingmenn sem greiddum atkvæði með sameiginlegri forsjá þá, en það var ekkert skrýtið því að umræðan var ekki orðin jafnþroskuð og djúp og hún hefur verið á síðustu árum.

Það er greinilegt að velferðarnefnd hefur unnið þetta af mikilli kostgæfni og vandvirkni í vetur. Þetta er stórt og mikið mál, gífurlega mikilvægt því að eins og kom fram er verið að veita dómaraheimildir til að úrskurða og dæma í málum sem hafa mjög mikið að segja um velferð barns og hagi þess og stöðu í samfélaginu. Ég er sannfærður um að með þessu sé gengið til góðs, það sé jákvætt að hægt sé að fara þessa leið og hún verði börnum jafnt sem foreldrum fyrir bestu þegar upp er staðið í langflestum tilfellum.

Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að spyrja hv. framsögumann um fleiri atriði heldur bara árétta mikilvægi þess að þetta komi sem fyrst til skoðunar og úrvinnslu, að það verði sem sagt regla að foreldrar skipti með sér kostnaði vegna umgengninnar. Þetta er mjög ósanngjarnt eins og það er í dag, að kostnaðurinn lendi á umgengnisforeldrum þar sem blasir við að nú á tímum flytur fólk oft og getur verið langt á milli og fjarlægðir miklar og kostnaður mikill við að fljúga, aka o.fl. Ég árétta að það er mjög mikilvægt að þetta atriði verði tekið inn í myndina.