Frumvörp um fiskveiðimálefni

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 10:32:08 (11678)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

frumvörp um fiskveiðimálefni.

[10:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Nú styttist í að langþráð umræða hefjist um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi landsmanna. Þá er nærtækt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra í ljósi þeirrar gríðarlegu gagnrýni sem fram hefur komið í meðferð þessa máls á kvótafrumvörpin, bæði fiskveiðistjórnarkerfið og veiðileyfagjaldið, jafnt frá hagsmunaaðilum sem fræðimönnum. Í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið nú, sem er á allan hátt sambærileg þeirri sem áður kom fram, meðal annars við þau drög sem þáverandi hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála, Jón Bjarnason, lagði fram í desember, vil ég inna hæstv. utanríkisráðherra eftir afstöðu hans til þessa máls í ljósi þeirra orða sem hann viðhafði við umræðu um það mál í kringum 20. desember þar sem hann kallaði þáverandi hugmyndir bílslys.

Við þá umræðu komst hæstv. ráðherra svo að orði að oft reri hann einn á báti í umræðum um eigin mál. Mig langar að forvitnast hjá hæstv. ráðherra hvort svo sé enn í dag í ljósi þess að miðað við hvernig bæði málin líta út í dag virðist lítið sem ekkert tillit hafa verið tekið til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið við vinnslu þess máls nú, meðal annars gagnrýna þeir sérfræðingar sem unnu í hagfræðinganefnd fyrrverandi hæstv. ráðherra Jóns Bjarnasonar í þá tíð og núverandi sérfræðinga (Forseti hringir.) fyrir atvinnumálanefnd þetta mjög harðlega. Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að það stefni í álíka slys og (Forseti hringir.) gerði í desember síðastliðnum? (Gripið fram í: Umferðarslys.)