Frumvörp um fiskveiðimálefni

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 10:36:49 (11680)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

frumvörp um fiskveiðimálefni.

[10:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Nú háttar þannig til að þeir sérfræðingar sem stuðst er við í þessum efnum telja að í rauninni sé ekki hægt að ræða það frumvarp sem kemur fyrir þingið í dag, veiðigjaldafrumvarpið, nema hitt frumvarpið sé fyrir hendi þannig að það komist einhver heil skynsemi í þá umræðu í heildina tekið hvernig haga á gjaldtökunni af sjávarútveginum, svo einhver skynsemi sé í henni þurfi menn að vita hvernig lögin um stjórn fiskveiða standa. Ég fagna því ef hæstv. utanríkisráðherra lýsir yfir vilja til að laga frumvarpið um stjórn fiskveiða en bendi á þann tvískinnung sem í því felst að koma með það á eftir veiðigjaldafrumvarpinu. Því miður sýnist mér stefna í að þessu megi jafna við rútuslys í stað bílslyss þar sem farþegarnir vita í rauninni ekki neitt annað en að bílstjórinn sé að fara með þá í einhverjar bölvaðar ógöngur. Ekki er tekið mark á viðvörunarorðum þeirra og því stefni í eitthvert óhapp sem ég treysti á að (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra leggi lið sitt við að forða.