Lokun útibúa Landsbankans á landsbyggðinni

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 10:45:51 (11686)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

lokun útibúa Landsbankans á landsbyggðinni.

[10:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er ekki ánægð með þau orð hv. þingmanns þegar hann heldur því fram að fjármálaráðherra geri sér ekki grein fyrir ábyrgð sinni. (Gripið fram í.) Ég spyr hv. þingmann á móti hvort hann hafi lesið lögin sem gilda um fjármálastarfsemi hér á landi.

Breytingar Landsbankans fela í sér að afgreiðslur úti á landi í útibúum á átta stöðvum og Landsbankinn hefur talað um að hann muni vera með ýmsa þjónustu til mótvægis þessu. En það sem skiptir máli er að Landsbankinn og Bankasýslan starfa eftir lögum og stefnumörkun um starfsemina og ef við ætlum að skapa annan ramma utan um þann rekstur og gera aðrar kröfur til Landsbankans en annarra banka sem starfa á sama samkeppnismarkaði verðum við að gera það í gegnum lög og eigendastefnu. Þá þurfum við að taka afstöðu til þess hvort Landsbankinn eigi að starfa með öðrum hætti en aðrir bankar (Forseti hringir.) á sama markaði. Þá er spurning hvort ríkiseignin hafi eitthvað með samkeppnisstöðuna að gera. (Forseti hringir.) Þess má geta að þessi lokun útibúa skapar auðvitað tækifæri fyrir til dæmis sparisjóðina að hasla sér völl á þessum stöðum.