Eigendastefna Landsbankans

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 10:49:57 (11689)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

eigendastefna Landsbankans.

[10:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan var það þannig að þegar ríkið eignaðist Landsbankann og fleiri fjármálastofnanir var ákveðið að búa til sérstakt eignaumsýslufélag, Bankasýslu ríkisins. Því skiptir fjármálaráðuneytið sér ekki af daglegum rekstri né ákvörðunum sem þessum. Ég frétti aðeins af þessum aðgerðum og þær voru ekki bornar undir mig enda gera lögin og eigendastefnan ráð fyrir því að þarna sé eldveggur á milli og það er ekki gert ráð fyrir því samkvæmt allri þeirri umgerð sem bæði hv. þingmenn hafa skapað og eins ráðuneyti með stefnumörkun sinni að fjármálaráðherra skipti sér af daglegum rekstri Landsbankans og það held ég að sé ágætt.

Jafnvel þó að Landsbankinn taki óvinsælar ákvarðanir er reglum og umgengni þannig hagað að fjármálaráðherra stígur ekki inn í þær aðgerðir. Hins vegar gefa þessar aðgerðir tilefni til að skoða einmitt lögin og skoða eigendastefnuna og athuga allar hliðar á því hvort ástæða sé til þess að setja annan ramma og setja aðrar skyldur á Landsbankann, sem eru í eigu ríkisins, en á aðra banka og þá um leið þurfum við að skoða samkeppnisstöðuna, skoða samfélagslegar skyldur bankans við ákveðin svæði og hvaða svæði og hvernig við ætlum að skilgreina þau o.s.frv. Eru þá skyldur íbúanna jafnframt einhverjar við að versla við bankann o.s.frv.? Þetta þurfum við allt að skoða og einmitt þessi ákvörðun gefur okkur (Forseti hringir.) tilefni til að velta öllum þessum hliðum við.