Eigendastefna Landsbankans

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 10:53:26 (11691)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

eigendastefna Landsbankans.

[10:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi spurningu til þingmanna Vinstri grænna, fyrir þá mun ég ekki svara. En hins vegar er það þannig að sú breyting sem verður á útibúanetinu hjá Landsbankanum núna skýrist að stórum hluta af þróun og breytingu á viðskiptaháttum, en um 80% allra samskipta við bankann eru orðin rafræn eða í gegnum síma. Það er auðvitað mikilvægt að við högum allri okkar stefnumörkun í samræmi við tækniþróun, í samræmi við bættar samgöngur o.s.frv.

Bankinn hefur talað um að hann muni áfram sinna þessum svæðum og muni til dæmis halda uppi þjónustuferðum fyrir aldraða eins og fram kemur hjá bankanum sjálfum. En umfram allt tel ég að við ættum að horfa á hvað það þýðir ef fjármálaráðherra sjálfur á að stíga (Forseti hringir.) inn í aðgerðir sem þessar eða hvort við ættum ekki frekar að skoða heildarstefnumörkunina og lagasetninguna og anda laganna sem þingmenn sjálfir samþykktu (Forseti hringir.) í kringum þessi fyrirtæki.