Veiðigjald og eignir Landsbankans

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 10:58:45 (11694)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjald og eignir Landsbankans.

[10:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var nú rýrt svar. Einföld fullyrðing frá hæstv. fjármálaráðherra að þetta mundi ekki hafa nein áhrif þegar það blasir við í fyrsta lagi að frumvörpin tvö, og þetta snýst ekki bara um veiðigjaldið, munu hafa þau áhrif að Landsbankinn þarf að gjaldfæra hjá sér yfir 30 milljarða kr. Það er auðvitað augljóst mál að hluti af þeim undirliggjandi eignum sem eru á bak við þessi skuldabréf eru auðvitað eignir frá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Þess vegna finnst mér það mjög ótrúverðugt þegar hæstv. ráðherra segir síðan: Nýi bankinn er bara alveg ónæmur fyrir þessu og áhrifin á gamla bankann eru engin. Og það að þegar svona kemur fram hafi engin áhrif á endurmetnar eignir eða hafi engin áhrif á hvort það verði sú virðisaukning sem gengið er út frá í samningnum milli gamla og nýja bankans. Það liggur einfaldlega fyrir, hæstv fjármálaráðherra, að þessi samningur var skilyrtur eins og ég rakti og nú er auðvitað augljóst mál að það verður að kalla eftir frekari upplýsingum um þessi mál. Hv. atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) verður auðvitað að fá botn í þetta mál og einföld og kæruleysisleg fullyrðing hæstv. fjármálaráðherra breytir nákvæmlega engu um það.