Umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 11:12:59 (11703)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við dagskrá fundarins í dag. Hér á að ræða veiðigjaldið eða veiðiskattinn en hann hlýtur að vera háður kerfinu sjálfu. En málið um framtíð kerfisins er enn þá í nefnd auk þess sem þar eru hugmyndir frá mér um eignarhald á kvótanum sem ég vildi gjarnan að yrðu ræddar og eðlilegt væri að ræða í samhengi við hitt málið í nefndinni sem fjallar einnig um eignarhald á kvótanum.

Ég geri tillögu til forseta að þetta mál verði núna tekið af dagskrá. Síðan verði öll þrjú málin rædd samtímis á fundi. Þá geta hv. þingmenn tjáð sig í fyrsta lagi um eignarhaldið á kvótanum, hvernig það eigi að vera, í öðru lagi um framtíð kerfisins og síðan getum við rætt um skattlagningu og annað slíkt, það að hræra í pottinum eins og sumir kalla það.