Umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 11:31:34 (11719)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek það skýrt fram og ítreka að okkur er ekkert að vanbúnaði að fara að taka þetta veiðigjaldafrumvarp til 2. umr. og þær breytingartillögur sem hér eru boðaðar.

Hér er sagt að ekkert hafi verið hlustað á umsagnir aðila. Ég mótmæli því, virðulegi forseti, vegna þess að töluvert miklar breytingar eru í veiðigjaldafrumvarpinu og þeim útreikningum sem koma hér fram þar sem einmitt hefur verið hlustað á aðila og tekið við góðum tillögum og þær settar inn.

Við skulum fara í efnislega umræðu, því kalla ég eftir, um veiðigjöld. Ég minni á að formaður Sjálfstæðisflokksins sagði við 1. umr. að Sjálfstæðisflokkurinn vildi hækka veiðigjöld og varaformaður Sjálfstæðisflokksins bætti um betur og kvað upp úr um það líka í eldhúsdagsumræðum. Í landsfundarsamþykktum Framsóknarflokksins er talað um hækkun veiðigjalds, að vísu hóflegt gjald. (Gripið fram í: Ja-há.) Við skulum fara í málefnalega umræðu um það hvað hóflegt (Forseti hringir.) veiðigjald er í dag (Gripið fram í.) miðað við 75 milljarða kr. (Forseti hringir.) áætlaða framlegð. Ef ríkið fær 15 milljarða af því, er það hóflegt eða ekki? Tökumst á um það í dag í (Forseti hringir.) málefnalegri umræðu en ekki með þeim fundatæknilegu atriðum sem sett eru á svið af stjórnarandstöðunni.