Umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 11:34:23 (11721)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:34]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Manni hlýnar um hjartað að finna hversu heitt stjórnarandstaðan þráir handleiðslu hæstv. forsætisráðherra og rekur iðulega upp sársaukamikið ramakvein í hvert skipti sem forsætisráðherra er fjarverandi. Það er líka umhugsunarefni hversu rík árátta það er að þurfa alltaf að ræða um forsætisráðherra þegar hún er fjarverandi við skyldustörf erlendis.

Talandi um að hér séu að verða óverulegar breytingar á veiðigjaldafrumvarpinu sem varla taki því að nefna þá varða þær til að mynda 10 milljarða kr. sem maður hefði haldið að mundi muna um í þessu árferði.

Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að ræða þessi tvö frumvörp í samhengi og ræða þau saman í þinginu, ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Það er ekki vegna þess að fiskveiðistjórnarfrumvarpið sé óhjákvæmileg forsenda þess að hægt sé að ræða um gjaldtöku eða um töku veiðigjalds (Forseti hringir.) af umframarði í sjávarútvegi, það er engin forsenda þess að (Forseti hringir.) hægt sé að ræða um veiðigjaldið, en mér finnst sjálfsagt og tek undir það að samhengis málsins vegna séu þessi tvö mál rædd saman.