Sjúkratryggingar og lyfjalög

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 11:43:09 (11726)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[11:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég er hlynnt þeirri hugmyndafræði sem þetta frumvarp byggist á en með því er lagt til nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði og er áherslan á greiðsluþátttöku án vísunar í sjúkdóma.

Við sem höfum lagt fram minnihlutaálit nefndarinnar teljum hins vegar að farsælla hefði verið að frumvarpið tæki til alls kostnaðar sem einstaklingar bera vegna heilbrigðiskerfisins eins og hugmyndir voru uppi um í nefnd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leiddi á sínum tíma. Slíkar breytingar hefðu mildað útgjöld margra sem virkilega þurfa að reiða sig á þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þjónustan er meira en bara lyf og því munum við væntanlega sjá dæmi þess að þetta muni leiða til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu varðandi kostnað í kerfinu.

Ég mun ekki greiða þessu máli atkvæði mitt og mun sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.