Tekjustofnar sveitarfélaga

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 11:58:09 (11735)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[11:58]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á álagningu fasteignaskatts á hesthús en breytingin miðar að því að jafnræðis sé gætt innan sama sveitarfélags við álagningu fasteignaskatta á hesthús, en verið hefur þó nokkurt misræmi við þá álagningu.

Þannig hefur verið um hnúta búið að jafnvel hesthús sem standa nær hlið við hlið hafa verið skattlögð með mismunandi hætti. Hæstiréttur hefur staðfest þá meginreglu að óheimilt sé að mismuna búsetu með álagningu skatts. Það er óheimilt að mismuna skattaðilum. Skattur skal vera almenns eðlis og gæta að jafnræðisreglu í hvívetna.

Meiri hlutinn leggur eindregið til að frumvarpið verði samþykkt og leggur jafnframt til að settur verði á fót starfshópur sem fari yfir aðgreiningu á milli hesthúsa í tómstundaskyni og atvinnurekstrar þannig að hægt verði í framhaldinu að greina betur þar á milli. Við teljum því breytingartillögu hv. þm. Róberts Marshalls (Forseti hringir.) góðra gjalda verða en að hún sé of flókin í framkvæmd. Við teljum að fram verði að fara alvörugreining á þessum málum áður en til framkvæmdar kemur eins og bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa lagt til.