Barnalög

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 12:08:38 (11744)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[12:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því mjög að þetta mál er komið hér til atkvæðagreiðslu. Ég tel að frumvarpið og breytingartillögur sem velferðarnefnd hefur orðið ásátt um að gera feli í sér miklar umbætur, miklar framfarir í þessum að mörgu leyti flókna málaflokki. Það er ákveðinn sigur að málið sé komið til atkvæða með nefndaráliti þar sem allir meðlimir og áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd skrifa undir. Barnalög eru auðvitað þess eðlis að í þeim eru ákvæði sem margir hafa mjög mismunandi skoðanir á og margir hafa heitar skoðanir á, þannig að þetta er viss sigur.

Frumvarpið er merkilegt og breytingartillögurnar líka. Hér er lögð aukin áhersla á sáttameðferð. Í inngangskafla er innleitt orðalag úr barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við gerum tillögu um að taka upp heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá og skera úr um lögheimili, þannig að hér eru stigin mörg skref sem byggja á reynslu nágrannaþjóða okkar (Forseti hringir.) og mikilli umræðu sem hefur farið fram hér innan lands á undanförnum árum.

Það er samt eitt álitamál sem velferðarnefnd vill ræða frekar (Forseti hringir.) og ég bið því um að nefndin fái málið aftur til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr.