Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 15:32:15 (11795)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem litlu við þetta að bæta nema um það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson staðfesti, að skuldir útgerðarinnar eru miklar og lítið hefur verið afskrifað, það er kannski vandinn. Eða ætlum við kannski að hætta við … (Gripið fram í.) Já, það er kannski vandinn, að ekki hefur verið gripið til þeirra ráðstafana, gripið til aðgerða hjá þeim sem hafa lánað sjávarútvegsfyrirtækjunum og skuldurum greinarinnar. Er kannski hugmyndin hjá þeim sem ætla að koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði samþykkt að erlendir kröfuhafar verði settir í forgang umfram íslenska þjóð? (Gripið fram í.) Að íslenska þjóðin geti ekki heimt eðlilega rentu (Gripið fram í.) af eign sinni vegna þess að andstæðingar frumvarpsins ætla að setja erlenda kröfuhafa í forgang og koma í veg fyrir að þjóðin fái sína eðlilegu rentu, sem er sanngjörn ef auðlindagjald af greininni er samtals upp á 15 milljarða af 75? Það er ekki ósanngjarn hlutur. [Frammíköll í þingsal.] Það er ekki ósanngjarnt að þjóðin fái 22% í sinn hlut á móti tæplega 80% hjá þeim sem nýta auðlindina. Ég ætla að setja þjóðina í fyrsta sæti hvað þetta varðar. Aðrir verða að afskrifa skuldina en ríkissjóður og skattgreiðendur í þessu landi.