Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 15:39:19 (11799)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur ekki heyrt það greinilega áðan þegar ég lýsti því hver viðbrögðin voru við þeim ágreiningi sem var um forsendur aðferðafræðinnar. Ég ætla ekki að endurtaka það, en það verður örugglega skráð í þingtíðindum og má lesa það á netinu á eftir til að spara mér tíma því að hann er að renna út.

Strandveiðarnar greiða gjald í dag. Það er greitt gjald fyrir hvert landað kíló sem kemur upp á bryggju þannig að menn skulu ekki halda að verið sé að sleppa við það.

Auðvitað er hlustað á umsagnaraðila, eða út af hverju haldið þið, ágætu þingmenn, að breytingartillögur meiri hlutans séu gerðar? Þær fela í sér lækkun á gjaldtökunni frá upphaflega frumvarpinu upp á 6–7 milljarða, þar er tekið tillit til skuldsettra fyrirtækja vegna kvótakaupa, þar er tekið tillit til neikvæðrar rentu o.s.frv., þær taka tillit til og byggja allar á þeim umsögnum sem borist hafa til nefndarinnar. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu er hlustað á þá umsagnaraðila sem til okkar koma. Nema hvað?