Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 16:41:28 (11801)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:41]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir hans efnismiklu ræðu. Hann fór völdum orðum um áform stjórnvalda í þessum efnum og kallaði það blaður, sýndarmennsku og ýmislegt í þá veruna. Það er vitaskuld skoðun hv. þingmanns að svo megi tala um þau áform. Var efnislega greinilegt af ræðu hv. þingmanns að Sjálfstæðisflokkurinn á mikið undir því að fiskveiðistjórnarkerfið verði óbreytt, eða hvað?

Ég hef saknað þess í umræðunni að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komi ekki með ýmsar hugmyndir í þá veru hvort þeir vilji hóflegt veiðigjald. Hversu mikið þá? Sumir sjálfstæðismenn hafa nefnt 10–12 milljarða og hvað er þá hóflegur leigupottur, ef svo má segja, sem er kannski frumlagið í því dæmi? Hvernig er hóflegt að skipta aflanum þegar hann verður aukinn, þegar 40:60% af því fara hvort í sinn pottinn? Hverjar eru tillögur Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum? Vilja þeir yfir höfuð aukin veiðigjöld?