Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 16:53:17 (11811)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur verð ég að svara þessu svona: Það er ekki nokkur lífsins leið að nefna neinar tölur í þessu sambandi vegna þess að við vitum ekki hvert rekstrarumhverfi sjávarútvegsins verður. Það mun ráðast af því frumvarpi sem fyrir liggur um stjórn fiskveiða. Ef það verður eitthvað í líkingu við það sem við sjáum núna þarf að lækka veiðigjaldið vegna þess að sjávarútvegurinn mun annars ekki standa undir því. Það er verið að búa til óhagkvæmni og óréttlæti með því.

Ég vil líka vekja athygli á því að þeir sérfræðingar sem við höfum kallað fyrir nefndina hafa einmitt sagt að veiðigjaldið eins og þarna er verið að búa til, þrátt fyrir þær breytingar sem liggja fyrir frá meiri hluta nefndarinnar, sé í hærra lagi. Og það sem meira er, sérfræðingarnir hafa bent á að það sé algjörlega galið að innheimta þetta gjald og hafa síðan rekstrarumhverfi sjávarútvegsins eins og frumvarp um stjórn fiskveiða kveður á um. Þessi mál eru nátengd og hv. þingmaður verður að hafa það í huga. Ef hv. þingmaður vill að sjávarútvegurinn (Forseti hringir.) borgi hærra gjald verður hann að draga til baka í einum grænum hvelli frumvarp um stjórn fiskveiða.