Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 16:54:33 (11812)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki á dagskrá að draga frumvarpið til baka, en ég skal breyta spurningunni: Hvað telur hv. þingmaður og Sjálfstæðisflokkurinn að veiðileyfagjaldið ætti að vera miðað við óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi, ef miðað er við 80 milljarða kr. framlegð á þessu ári? 75 milljarðar eru rauntalan á síðasta ári, hvað er hóflegt veiðileyfagjald úr því?

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur líka gagnrýnt mjög þá aðferðafræði að við skulum fara í auðlindarentu. Hv. þingmaður og Sjálfstæðisflokkurinn allur samþykkti lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011, sem eru mjög í takti við það sem hér er. Talað er um vinnuhóp sem reikna á út viðmiðunarverð o.fl. Það er margt mjög líkt með þessum málum. Hver er þá munurinn hér? Af hverju samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn frumvarp um að taka auðlindarentu af olíuleit, af kolvetni, en er svo ekki tilbúinn að fara í þessa vinnu hér? (Forseti hringir.) Ég mun koma betur í seinni ræðu minni að forsendum og aðferðafræði þegar við gerum þetta í fyrsta skipti.