Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 16:55:53 (11813)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hafði forustu um að leggja í fyrsta skipti á auðlindagjald í sjávarútvegi og ég fór yfir sögulegar forsendur fyrir því í ræðu minni áðan. Þá var gert ráð fyrir hóflegu gjaldi, þá var gert ráð fyrir því að þetta auðlindagjald yrði líka lagt á aðganginn að annarri auðlindanýtingu í samfélaginu. Það hefur ekki verið staðið við það.

Hv. þingmaður nefnir kolefnisgjaldið og það er mjög gott að hann skuli gera það. Það er nefnilega sérstaklega vikið að því máli í greinargerðinni sem sérfræðingarnir okkar, Stefán B. Gunnlaugsson og Daði Már Kristófersson, skrifuðu. Niðurstaða þeirra er einmitt sú að það sé svo vitlaust að fara af stað með gjaldtöku í sjávarútvegi sem er gjörsamlega í blóra við gjaldtökuna sem höfð er uppi varðandi kolefnið. Þeir benda einmitt á að þar komi menn þó að ónumdu landi, þar hafi menn ekki orðið að vinna sér inn veiðirétt, þar hafi menn ekki þurft að borga fyrir hagræðingu í greininni með peningum útgerðarinnar, þannig að það væru (Forseti hringir.) auðvitað forsendur fyrir því að hafa það gjald mun lægra í sjávarútveginum en varðandi kolefnið. Ragnar Árnason prófessor bendir á að hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli láti menn sér detta (Forseti hringir.) í hug svo háa gjaldtöku í sjávarútvegi eins og hér er boðuð.