Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 18:03:20 (11820)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka formanni atvinnuveganefndar fyrir ágætt samstarf við sjávarútvegsfrumvörpin.

Varðandi stefnu Framsóknarflokksins er það að því leytinu rétt að markmiðin eru mjög keimlík en útfærslurnar eru verulega ólíkar. Þess vegna höfum við framsóknarmenn lýst því yfir að að óbreyttu styðjum við ekki frumvörp ríkisstjórnarinnar.

Hér talar hv. þingmaður um að framlegðin á síðastliðnu ári verði um 75 milljarðar. Einnig hefur komið fram að bankakerfið hefur tekið til sín um 23–25 milljarða á síðustu árum. Ekkert bendir til annars en að það haldi áfram þannig að þá standa svo sem 50 milljarðar, nema menn ætli að afskrifa þá í Landsbankanum, bent hefur verið á að afleiðingin gæti orðið sú. Er eðlilegt að 15 milljarðar séu hóflegt veiðigjald af þessum 50 milljörðum? Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra í morgun hvað gert væri ráð fyrir miklu í fjárlagafrumvarpinu vegna næsta árs. Ég held að séu 11 milljarðar.

Við þurfum fyrst og fremst að skoða afleiðingarnar fyrir fyrirtækin. Ef raunin verður sú að fjöldagjaldþrot verður í greininni með því að miða við 15 milljarða er ekki um að ræða hóflegt veiðigjald. Ef útfærslan væri hins vegar þannig að hún skiptist sanngjarnar á fyrirtækin liti það allt öðruvísi út. Ég held að 15 milljarðar séu óhóflega hátt gjald. Það má ekki gleyma því að á síðastliðnu ári skilaði veiðigjaldið ríkinu einhverjum 4 milljörðum. Áætlað er að tekjuskattur verði 5 milljarðar, þannig að greinin muni skila um 9 milljörðum. Hér þarf að (Forseti hringir.) horfa á samhengið. Greinin borgar nú þegar opinber gjöld.