Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 18:07:50 (11822)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns í sambandi við hvort unnt sé að ræða veiðigjaldsfrumvarpið alveg óháð hinu er það ekki hægt. Það hefur komið fram í fjölmörgum umsögnum. Ég nefndi að ASÍ og auðvitað sérfræðingarnir sem voru okkur til ráðgafar í nefndinni sögðu að ef menn ætluðu að ganga svona langt og djarflega fram og taka svona hátt gjald, sem að mínu mati er langt umfram að vera hóflegt, yrðu menn alla vega að gefa greininni öll þau tækifæri sem bjóðast og mættu ekki skerða möguleika hennar til hámarkshagkvæmni til að geta staðið undir slíkum álögum.

Það er útilokað að við ljúkum umræðu um veiðigjaldið öðruvísi en að við vitum hvernig við ætlum að klára hitt málið. Eðlilegast væri að vísa því máli til ríkisstjórnarinnar í samráðs- og sáttaferli, og taka þetta veiðigjald og láta það duga í bili.

Ég hlustaði á hv. þm. Helga Hjörvar og datt í hug að ef komið hefði fram að leggja ætti á veiðigjald upp á 100 milljarða og svo hefði það verið lækkað niður í 20, væri ríkisstjórnin alveg gríðarlega góð. Þetta er því bara blöff og þvæla. Þegar hugmyndir um svo hátt veiðigjald komu fram var sagt að hugsanlega væri það sett fram svona gríðarlega hátt, 24 milljarðar, 70%, til að taka allan þungann úr umræðunni um stjórn fiskveiða. Allir mundu horfa á töluna og síðan yrði niðurstaðan sú að gjaldið yrði lækkað um helming. Sjálfur var ég farinn að trúa því að það yrði niðurstaðan af vinnu nefndarinnar af því að mér fannst meiri hluti nefndarinnar taka á móti þeim umsögnum sem bárust með því að kinka kolli án þess bein umræða væri eða samráð haft um málið í nefndinni. En þegar tillögurnar komu fram kom í ljós að það á að enda í 70% og 24 milljörðum eftir fimm ár þannig að ekki hefur orðið mikil breyting.