Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 18:58:53 (11828)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt sem hv. þingmaður segir að ekki hafi orðið breytingar á frumvarpinu sem leiði til þess að veiðigjaldið lækki. Þær breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu leiða til þess að það er, samkvæmt því sem nú liggur fyrir, 6 til 7 milljörðum lægra en ella. Það eru þó þau höfuðleður sem stjórnarandstaðan getur haft sér við beltisstað þegar hún hverfur frá þessum umræðum. Menn hafa tekið tillit til þeirra raka sem komið hafa frá stjórnarandstöðunni, frá greininni og frá sérfræðingum.

Sá sérfræðingur sem hv. þingmaður vitnaði hér til áðan hefur líka sagt fyrir tveimur sólarhringum í fjölmiðlum að ekki sé hægt að meta áhrif veiðigjaldsfrumvarpsins eins og það liggur fyrir fyrr en menn sjái nákvæmlega áhrifin af stóra frumvarpinu sem ekki er komið fram.

Ég sagði hér í morgun: Ríkisstjórnin er reiðubúin til að hlusta á stjórnarandstöðuna varðandi það frumvarp. Ég sagði það hér í morgun að ég tel að hægt sé í góðu samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu að breyta því með þeim hætti að þokkaleg sátt náist. Hitt fullyrði ég að afkoma sjávarútvegsins er slík um þessar mundir að það er fullkomlega eðlilegt að greinin greiði sérstakt veiðigjald til þjóðarinnar fyrir þann einkarétt sem henni er á móti boðið upp á til að nýta auðlindina. Það þýðir að þeir sem eiga auðlindina, sem eru ég og hv. þingmaður og afgangurinn af íslensku þjóðinni, fá sitt afgjald af auðlindinni. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það aftur að jafnvel þó að veiðigjaldið næmi þeim 15 milljörðum, sem er líklegt að núgildandi frumvarp þýði, verður afkoma sjávarútvegsins aldrei betri en hún verður á næsta ári.

Hv. þingmaður skorast síðan undan því að segja hvernig hann vilji sjá tölurnar lenda. Hvað vill hann (Forseti hringir.) leggja sem veiðigjald á greinina? Hann svarar því ekki. Og á meðan hann gerir það ekki (Forseti hringir.) hlýt ég að draga þá ályktun að hann komi hér fyrst og fremst sem nakinn talsmaður (Forseti hringir.) sjávarútvegshagsmunanna.