Umræður um veiðigjöld og sjómannadagurinn

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 19:31:21 (11832)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að það er alveg fráleitt að ræða mál af þessu tagi á þessum degi. Það er líka mjög áberandi að stjórnarliðar hafa varla látið sjá sig hér í salnum undir þessari umræðu. Þeir halda því fram að nauðsynlegt sé að koma málinu í gegn en sjá sér þó ekki fært að taka þátt í umræðunni. Enginn ráðherra er á ráðherrabekkjum, ekki einn einasti ráðherra er á mælendaskrá.

Það er nauðsynlegt að fá upplýsingar um það hjá forseta hversu lengi standi til að halda áfram með þennan fund. Það er nú þannig hjá þingmönnum að þeir vilja gjarnan taka þátt í hátíðahöldum sjómanna þó að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra og fleiri ráðherrar ætli sér ekki að gera það. Það er löngu tímabært að þessari umræðu ljúki og menn fari að sinna öðrum þeim verkefnum sem bíða. Ég fer fram á að virðulegur forseti svari því strax hversu lengi standi til að halda áfram með þennan fund.