Umræður um veiðigjöld og sjómannadagurinn

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 19:44:32 (11844)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þarf ekkert að biðjast afsökunar á að hafa sagt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins nenni ekki að vinna vinnuna sína, það er bara staðreynd. Þeir nenna ekki að sitja undir málþófinu úr sjálfum sér, það er ekkert annað. Það voru þeir sem óskuðu eftir því að fá tvöfaldan ræðutíma og ég hef verið hér við umræðu hluta úr degi, og hef meira að segja tekið þátt í umræðunum í dag, og hef heyrt þá nánast sprengja sig á því að reyna að finna einhvern til að fylla upp í tímann. Það er til skammar en þetta er bara staðreyndin, það þýðir ekkert að tala um sjómannadaginn út af því.

Ég lofa hv. þingmönnum því að þeir munu sleppa héðan nógu tímanlega til að geta að minnsta kosti hlustað á ræðurnar — ég og hv. þm. Birgir Ármannsson komumst vonandi saman til þess á sunnudaginn. Þannig hefur hefðin verið og við erum menn hefðarinnar að þessu leyti. Ég tel, frú forseti, að nauðsynlegt sé að sú skoðun mín liggi fyrir að hér eigi að funda að minnsta kosti til klukkan fimm í fyrramálið. Mér finnst það algjört lágmark því að það eru svo margir sem þurfa að segja svo mikið.