Umræður um veiðigjöld og sjómannadagurinn

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 19:45:46 (11845)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt, hér fór fram atkvæðagreiðsla um lengd fundar í kvöld. Staðan er hins vegar sú að þeir sem greiddu atkvæði með lengdum fundi í kvöld, ekki þeir sem greiddu atkvæði gegn, eru fimm hér í húsi, þrír frá Vinstri grænum og tveir frá Samfylkingunni. Það er nú allur viljinn (REÁ: Enginn úr nefndinni.) hjá hinum lýðræðislega meiri hluta á þingi til að halda hér kvöldfund til að ræða þetta mikilvæga mál fyrir íslenska þjóð að fimm þeirra eru í húsinu til að vera viðstaddir umræðuna og taka þátt í henni.

Tali menn um lýðræði hefur verið sagt að það sé vandmeðfarið. Það verður að segja við þessa tvo vinstri flokka, Samfylkingu og Vinstri græna, að þeir (Gripið fram í.) skuli fara varlega með (Gripið fram í.) lýðræðið þegar því er beitt á þann hátt að þeir eru fimm talsins sem kalla eftir kvöldfundi í dag. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÞBack): Hljóð í salinn. Forseti biður um hljóð í salinn.)