Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 20:20:04 (11853)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aukin framleiðni, tækniframfarir, fækkun í mannafla, hækkun á matvöruverði og aðrir slíkir þættir hafa líka bætt afkomuna yfir lengri tíma í sjávarútvegi en sannarlega líka kvótakerfið.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að til eru þjóðir í heiminum sem eru ríkar af auðlindum en njóta í litlu eða engu þeirrar auðlegðar. Dæmi um hið gagnstæða eru frændur okkar Norðmenn og ég held við eigum að læra mikið af þeim.

Við höfum sett lög um olíuvinnslu í sjó sem byggjast á því að við tökum þar auðlindarentuna með svipuðum hætti og Norðmenn hafa gert. Við eigum að gera þetta með sama hætti í veiðigjaldinu og klára það mál áður en við förum í sumarleyfi. Þar sem hv. þingmaður er utan af landi legg ég ríka áherslu á það sem þingmaður héðan úr höfuðborginni að við eigum með sama hætti að skattleggja auðlindarentuna í orkuiðnaðinum, sem er þá kannski auðlindarenta sem við á höfuðborgarsvæðinu mundum skila í ríkari mæli en margir aðrir landshlutar, ef menn vilja reikna það niður á íbúa hvers sveitarfélags hverju þeir skila í sameiginlega sjóði eins og verið hefur lenska í áróðrinum gegn veiðigjaldi.

Ef við bærum gæfu til að stofna auðlindasjóð um þessar sameiginlegu auðlindir, um olíuna sem ég vænti að við finnum, um orkuna sem við eigum í fallvötnunum og í jarðhitanum og um fiskinn í sjónum, gætu komandi kynslóðir haft hér tugmilljarðaforskot á hverju ári í þeirri hörðu samkeppni á alþjóðamörkuðum sem þær eiga fram undan.