Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 20:24:53 (11856)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu, það er ákveðin von í henni.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja: Var auðlindarenta af sjávarútvegi á Íslandi fyrir upptöku kvótakerfisins þegar allar útgerðir voru meira og minna reknar með tapi? Ég spyr í öðru lagi: Fer ekki saman arðbær útgerð og auðlindarenta? Skapar ekki arðsemi útgerðarinnar auðlindarentuna framar öðru? Í þriðja lagi spyr ég: Nú höfum við lágt gengi, allur útflutningur blómstrar, þar á meðal útgerðin. Er það ekki skýringin á þeim gífurlega hagnaði sem þar er eins og í ferðaþjónustu og álútflutningi?

Hv. þingmaður þekkir markaði og ávöxtunarkröfu. Er ekki há ávöxtunarkrafa til atvinnugreinar sem býr við mikla áhættu, og þá á ég sérstaklega við pólitíska áhættu — hefur ekki stöðugt verið talað um það af vinstri flokkum meira og minna að taka kvótann af útgerðinni, þ.e. að búa til áhættu og auka þar með ávöxtunarkröfuna og minnka arðsemina, af því að hv. þingmaður talaði um markaði?

Við ræðum hér skattlagningu á útgerð sem byggir á ákveðnu fiskveiðikerfi. Nú liggur fyrir nefndinni frumvarp sem stjórnarflokkarnir hafa samþykkt sem eyðileggur að mínu mati alla arðsemi í greininni vegna þess að framsal er takmarkað og þar með hverfur arðsemin og þá er ekki um neina auðlind að ræða, þá verður engin renta. Hvers vegna erum við þá að tala um að skattleggja eitthvað þegar annað frumvarp frá sömu ríkisstjórn eyðileggur það sem fyrra frumvarpið á að skapa? Verðum við ekki að ræða seinna frumvarpið fyrst?