Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 20:33:20 (11862)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á tólf ára þingsetu minni, þar af sem stjórnarandstæðingur í sennilega átta ár sem þurfti að sitja undir samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, lærði ég fljótlega þau trikk sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson setti hér fram.

Stundum þarf maður að hlusta á ræður í fundarherbergjum eða annars staðar. Ég hlustaði á hv. þingmann áðan og þá tólf aðra sem tóku þátt í umræðum um fundarstjórn forseta. Ég verð að spyrja: Getum við ekki fært umræðuna upp á örlítið hærra plan? (Gripið fram í.)

Ég hlustaði á þær umræður sem hér fóru fram. Ég tilkynnti hv. þm. Jóni Gunnarssyni að ég gæti ekki hlustað á ræðu hans vegna þess að ég þyrfti að skreppa út á flugvöll til að koma fólki vestur á firði. Þó að fundur hafi byrjað hér stundvíslega klukkan hálfátta eftir matarhlé tók ég eftir þessum umræðum þar.

Virðulegi forseti. Ég get alveg setið undir þessum ræðum þó að ekki komi margt nýtt fram, það geri ég samt sem áður áfram. En ég spyr hvort við getum ekki fært umræðuna upp (Forseti hringir.) á aðeins hærra plan. Ég nefni sem fyrirmynd ræður Helga Hjörvars hér áðan, sem mér heyrist menn hafa (Forseti hringir.) tekið vel undir. Getum við ekki rætt þetta málefnalega? Við ætlum að vera hér fram á kvöld. Ég lærði það líka (Forseti hringir.) af þingsetu minni í stjórnarandstöðu, þegar samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var við lýði, að oft þurfti að funda langt fram á nætur.