Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 20:36:09 (11864)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þekki það sömuleiðis af langri þingreynslu að þau atvik geta komið upp í lífi okkar og starfi að við getum ekki setið undir öllum umræðum jafnvel þó að umræður standi yfir sem beinlínis snerta það málasvið sem maður er ábyrgur fyrir eða hefur með einhverjum hætti komið að. Ég tel að það sem hv. þm. Kristján Möller sagði um sína örstuttu fjarveru sé mjög eðlilegt og ekkert við það að athuga.

Ég vildi eingöngu vekja athygli á því í þessari umræðu að hæstv. utanríkisráðherra hefði látið mjög stór orð falla um þá sem ekki væru viðstaddir umræðuna eða hygðust ekki vera það. Ég vakti athygli á því að komið hefði fram áður í umræðunni að óskað væri eftir því að fulltrúar meiri hlutans í atvinnuveganefnd væru viðstaddir umræðuna þannig að hún gæti farið fram með eðlilegum hætti og við gætum skipst á skoðunum.

Menn hafa ekki verið að kalla sérstaklega eftir ráðherrum þó að kannski sé fullt tilefni til þess. Ég vildi ekki láta þessa hv. þingmenn liggja undir þeim ásökunum utanríkisráðherra að þeir væru hysknir og vildu ekki sinna vinnunni sinni. Ég vildi einfaldlega kalla eftir því hvort ekki væru þá eðlilegar ástæður fyrir fjarveru þeirra og hvort ekki væri mögulegt að ráða bót á því.

(Forseti (RR): Forseti vill upplýsa að hv. 7. þm. Norðvest., Ólína Þorvarðardóttir, er komin í Alþingishúsið.)