Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 21:21:55 (11869)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nefnilega enginn álitsgjafi sem gat mælt með því að frumvarpið færi óbreytt í gegnum þingið. Mikil orka og mikill tími hefur farið í það hjá atvinnuveganefnd að taka málið fyrir og hún hefur kallað til sín gesti sem ekkert mark er síðan tekið á. Þessi vinnubrögð eru alveg með ólíkindum og endurspegla vinnubrögðin í stjórnlagaráðsmálinu. Þá er upplýst hvernig ríkisstjórnin vinnur og meiri hlutinn í þinginu. Það er ótrúlega sorglegt að ekki skuli hlustað á allt það fólk sem kemur á fund nefndanna í góðum hug og segir álit sitt í von um að tekið verði mark á því sem það segir þegar það hefur uppi varnaðarorð.

En varðandi tekjumissi landsbyggðarinnar, sem þingmaðurinn fór yfir, spyr ég: Hver er að hans mati ástæðan fyrir því, ef röksemdir hans standast, að verið sé að færa fjármagn utan af landi til höfuðborgarsvæðisins? (Forseti hringir.) Hvers vegna er lagt til að þeir fjármagnsflutningar eigi sér stað?