Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 21:33:17 (11878)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði að ég væri í raun sammála hv. þm. Helga Hjörvar, við ræddum það reyndar fyrir nokkuð löngu síðan að ég er talsmaður þess að við setjum á fót svokallaðan auðlindasjóð og tökum eðlilegan arð af öllum auðlindum sama hvað þær heita. Ef við skilgreinum eitthvað sem auðlind eigum við að taka eðlilega rentu af því.

Hv. þingmaður nefndi virkjanir í einkaeigu. Þá rak ég augun í umsögn frá Grindavíkurbæ þar sem bent er á þetta misræmi, að þeir sem hefðu tekjur af lax- og silungsveiði þar sem fiskurinn gengur til sjávar og dafnar þar og gengur aftur upp í árnar, borga ekki veiðigjald og eru meira að segja undanþegnir virðisaukaskatti. Auðvitað þurfum við að þróa þá umræðu. Það er auðvitað ekki réttlætanlegt að taka af einni auðlind en ekki annarri. Ég kom inn á það í ræðu minni að það er ekkert réttlæti í því að þeir sem hafa aðgang að því að hita húsin sín upp með heitu vatni með þeirri auðlind sem öll þjóðin á, hún hlýtur að vera það eins og sjávarauðlindin, hlýtur (Forseti hringir.) að þurfa að deila því jafnt til allra.