Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 21:34:36 (11879)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég fæ það á tilfinninguna eftir að hafa hlustað á þær ræður sem eru hér í dag og andsvörin við þeim að menn séu að reyna að búa sér til einhvern ágreining um stóra málið því að heilt yfir hefur mér fundist þingmenn vera nokkuð sammála um meginatriðin, eins og fram kom hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni áðan, bæði í ræðu hans og svörum við andsvörum, þ.e. um það hvernig greiða á auðlindagjald. Við erum í sjálfu sér ekki ósammála um það prinsippmál frekar en flestir aðrir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hann sé ekki andvígur þeirri hugmyndafræði sem býr þarna að baki, þ.e. varðandi fast gjald og síðan auðlindartengt gjald.

Þrátt fyrir spurningar hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur í andsvari áðan hefur mér ekki fundist ég fá svar við þeirri spurningu hvernig frumvarp til laga um stjórn (Forseti hringir.) fiskveiða muni hafa áhrif á veiðigjaldafrumvarpið. Ég óska eftir því að hv. þingmaður svari því skýrar og þá kannski með nákvæmari dæmum.